Jafntefli í toppslagnum

Elvar Orri Sigurbjörnsson skoraði fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg heimsótti Ými í Kórinn í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en liðin tvö eru í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í 3. deildinni að ári.

Ýmismenn voru sterkari framan af fyrri hálfleik en Árborgarar voru fyrri til að skora þegar Elvar Orri Sigurbjörnsson setti hann af stuttu færi á 21. mínútu eftir góða sókn. Árborgarar áttu góðar sóknir í kjölfarið en staðan var 0-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði líkt og sá fyrri á þungri sókn Ýmis og þeir náðu að jafna á 65. mínútu. Þar við sat þrátt fyrir góð færi beggja liða sem áttu meðal annars bæði stangarskot í seinni hálfleiknum. Lokatölur 1-1.

Þegar tvær umferðir eru eftir er Árborg í 2. sæti með 32 stig en Ýmir er í 2. sætinu með 31 stig. Tindastóll er á toppnum með 37 stig og komnir með annan fótinn upp í 3. deildina.

Fyrri greinÍshellaferðum á Breiðamerkurjökli hætt að svo stöddu
Næsta greinSelfoss með annan fótinn í 1. deildinni