JC framlengir við Selfyssinga

Knattspyrnudeild Selfoss samdi í dag við vængmanninn James Mack III og framlengdi hann samning sinn við deildina um eitt ár.

Mack, eða JC eins og hann er kallaður, var markahæstur og stoðsendingahæstur hjá Selfossliðinu í Inkasso-deildinni í sumar. Hann skoraði átta mörk í deild og bikar og lagði upp sjö.

Hann er 28 ára gamall, öflugur sóknarmaður eins og tölurnar sýna, en einnig duglegur varnarmaður.

„Ég er mjög ánægður á Selfossi og hlakka til að taka annað tímabil hérna í þessum frábæra félagsskap. Ég hef lært mikið af veru minni hér og stefni að því að bæta mig enn frekar sem leikmaður. Inkasso-deildin er mjög skemmtileg og það verður spennandi verkefni að takast á við hana aftur næsta sumar,“ sagði JC í samtali við sunnlenska.is

Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari meistaraflokks, var ánægður með að halda JC í röðum Selfoss. „Ég er mjög glaður yfir þessu. JC stóð sig vel í sumar en ég veit að við getum fengið enn meira frá honum. Það er líka mikilvægt fyrir okkur að halda stöðuleika í hópnum hjá okkur, sem samsettur af ungum heimamönnum auk reynslumeiri leikmanna, eins og JC, sem hafa margt gott fram að færa,“ sagði Gunnar.

Fyrri greinLeikskólinn fer ekki aftur í fyrra húsnæði
Næsta greinFramkvæmdir hefjast við nýjan leikskóla