Ægir mætti KFA í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Úrslitin urðu svekkjandi 3-3 jafntefli.
Geoffrey Castillion kom Ægi yfir á 15. mínútu en heimamenn jöfnuðu skömmu síðar og komust svo í 2-1 á 35. mínútu. Þannig stóðu leikar þegar flautað var til hálfleiks.
Ægismenn voru ferskir á upphafsmínútum seinni hálfleiks og Bjarki Rúnar Jónínuson jafnaði metin eftir tveggja mínútna leik. Ágúst Karel Magnússon kom Ægi svo í 2-3 þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum.
Ægir reyndi að verja stigin þrjú í lokin en tókst það ekki því KFA jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartímans, bókstaflega á síðustu sekúndu leiksins og lokatölur urðu 3-3.
Þegar tvær umferðir eru eftir er Ægir í 8. sæti deildarinnar með 23 stig en KFA er í 5. sæti með 32 stig. Ægismenn hafa ekki kveðið falldrauginn algjörlega niður því þeir eru í hörkukeppni við liðin fyrir neðan, sem eru KFG, Kormákur/Hvöt og KF. KF er í fallsæti með 18 stig.