
Hamar og Kormákur/Hvöt gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld.
Leikurinn var jafn og spennandi og bæði lið fengu ágæt áður en gestirnir komust yfir á 21. mínútu. Eftir markið var leikurinn áfram opinn en Hvergerðingar voru ekki nógu klókir á síðasta þriðjungi vallarins og tókst ekki að skora. Gestirnir fengu hins vegar dauðafæri til að bæta við marki því á lokamínútu fyrri hálfleiks fengu þeir vítaspyrnu en Alejandro Lopez, markvörður Hamars, varði hana örugglega.
Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik en liðunum tókst lengst af ekki að bæta við mörkum. Sóknir Hamars þyngdust í lokin og á fjórðu mínútu uppbótartímans kom Aðalgeir Friðriksson boltanum loksins í netið.
Markið gæti reynst mikilvægt upp á framhaldið en seinni leikur liðanna fer fram á Blönduósi á þriðjudag. Þá kemur í ljós hvort liðið mun leika í 3. deildinni á næsta ári.