Tveir af burðarásum Selfossliðsins í knattspyrnu, Jóhann Ólafur Sigurðsson og Einar Ottó Antonsson skrifa undir tveggja ára samning við Selfoss í hádeginu í dag.
Þetta eru gleðifréttir fyrir Selfyssinga því þeir félagar hafa verið hluti af kjölfestu liðsins á síðustu tveimur árum.
Jóhann Ólafur var eftirsóttur af öðrum liðum en í samtali við sunnlenska.is sagði hann ráðningu Loga Ólafssonar hafa ráðið miklu varðandi framhaldið hjá sér.
„Mér líst mjög vel á framhaldið hjá Selfossliðinu og vitaskuld er stefnan sett beint upp aftur. Koma Loga á Selfoss voru frábærar fréttir og sýnir þann metnað sem býr í félaginu,“ sagði Jóhann Ólafur. „Svo er maður líka svo vel upp alinn Selfyssingur að ég gat ekki farið annað.“