Jóhanna Eivinsdóttir úr Þorlákshöfn tryggði sér í gær titilinn Sterkasta kona Íslands 2015 en keppnin fór fram í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn.
Fjórtán keppendur tóku þátt í keppninni sem gekk mjög vel fyrir sig en keppt var í fjórum greinum; uxagöngu, sandpokaburði, drumbalyftu og réttstöðulyftu. Úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu greininni, réttstöðulyftu.
Jóhanna var í 3. sæti fyrir réttstöðulyftuna en hún sigraði þá grein örugglega og tvíbætti eigið Íslandsmet, lyfti 205 kg. Jóhanna vippaði sér þar með upp í 1. sætið en önnur varð Ingibjörg Lilja Kristjánsdóttir og Hrunakonan Lilja B. Jónsdóttir varð í 3. sæti.
Þetta er í annað skiptið sem Jóhanna sigrar í þessari keppni en hún sigraði árið 2009 og varð í 3. sæti árið 2011.
Allir keppendurnir fjórtán stóðu sig með stakri prýði og féllu persónulegu metin í hrönnum allan daginn.