Jóhanna Ýr Ágústsdóttir, Hamri/Þór, og liðsfélagar hennar í U16 ára landsliði Íslands í körfubolta náðu frábærum árangri á Norðurlandamótinu, sem haldið var í Finnlandi á dögunum, og enduðu í öðru sæti.
Stelpurnar unnu alla leiki mótsins nema á móti Finnum, sem urðu á endanum Norðurlandameistarar.
Jóhanna Ýr var valin í úrvalslið mótsins en hún spilaði mjög vel. Hún lék tæpar 20 mínútur í leik, skoraði 9,6 stig, gaf 2,6 stoðsendingar og stal 2 boltum að meðaltali í leik. Jóhanna skaut mjög vel fyrir utan þriggja stiga línuna og var með 40% nýtingu. Einnig gekk liðinu mjög vel þegar hún var inná vellinum en hún var +95 í þessum 5 leikjum sem gerir +19 að meðaltali í leik.
Næstu verkefni Jóhönnu og U16 ára liðsins verða í byrjun ágúst þegar liðið heldur til Svartfjallalands á Evrópumótið.