„Þetta var mikill baráttuleikur eins og við vissum og við hleyptum þeim inn í það sem þeir eru bestir í, að berjast eins og grenjandi ljón og setja mikla pressu á okkur.”
Þetta sagði Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir sigurleikinn gegn ÍA. „Við vorum kannski ekki að spila eins og við ætluðum að spila, vorum sofandi á verðinum í upphafi og síðan er þessi vítaspyrnudómur svolítið vafasamur en að þessu frátöldu þá held ég að þetta hafi verið mjög gott,” sagði Logi.
Selfyssingar léku manni fleiri í 90 mínútur en tókst þrátt fyrir það ekki að brjóta varnarmúr ÍA á bak aftur. „Að sjálfsögðu áttum við að nýta liðsmuninn betur en árangur Skagamanna á undirbúningstímanum hefur farið með himinskautum og þeir eru klárlega kandidatar til að vera á toppnum í 1. deildinni. Þeir missa mann af velli, komnir 2-1 yfir og geta farið í skotgrafirnar. Það er bara virkilega erfitt að sækja á móti þannig liðum. Það eru reyndir menn í öftustu línu hjá þeim sem kunna að hreyfa sig í vörn þannig að þetta var bara erfitt en mér fannst þetta vera góður sigur og fínt fyrir stemmninguna hér á Suðurlandi,” sagði Logi ennfremur.
Eftir fjörugan leik var framlengingin steindauð og bæði lið virtust vera að bíða eftir vítaspyrnukeppninni, þó að Selfyssingar hafi verið aðgangsharðari upp við mark ÍA. „Menn reyna að gera allt til þess að forðast að fara í vítaspyrnukeppni. Það er ekki gaman að knýja fram úrlit með þeim hætti þegar þarf að hengja einhvern sérstakan fyrir að klikka og slíkt, enda held ég að liðin hafi ekki verið að bíða eftir vítakeppninni.”
Þegar á reyndi var það markvörðurinn Jóhann Ólafur sem var hetja liðsins en hann varði þrjár fyrstu vítaspyrnur ÍA og eina til viðbótar í bráðabananum. Logi var ánægður með markmanninn. „Jói er virkilega góður markvörður og hefur æft alveg gríðarlega vel. Hann hefur verið í læri hjá Guðmundi Hreiðarssyni undanfarnar vikur, þó ekki lambalæri enda má hann ekki borða það. Hann hugsar vel um mataræðið og hefur grennst töluvert mikið og lítur mjög vel út.”
Deildarkeppnin hefst á föstudaginn þegar Selfoss mætir Fjölni á heimavelli en hefur Logi áhyggjur af því að menn hafi keyrt sig út í kvöld? „Nei, auðvitað er vont að fara í framlengingu svona rétt fyrir mót en við höfum æft vel og erum í góðu formi þannig að við náum að jafna okkur, það er ljóst.”