Hamar átti aldrei möguleika á sigri þegar liðið mætti Stjörnunni í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld. Stjarnan fékk 83-62 sigur í jólagjöf.
Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu örugglega í leikhléinu, 46-28. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 65-40. Hvergerðingar klóruðu lítillega í bakkann á lokakaflanum en munurinn var 21 stig að lokum.
Ellert Arnarson var stigahæstur hjá Hamri með 18 stig, Darri Hilmarsson skoraði 12, Andre Dabney 11 og Kjartan Kárason 10.
Marvin Valdimarsson skoraði 19 stig fyrir Stjörnuna gegn sínum gömlu félögum.
Eftir góða byrjun hafa Hamarsmenn nú sigið niður töfluna og fara inn í jólafríið í 7. sæti með 10 stig.