Ólafur Guðmundsson, liðsstjóri HSK í frjálsum íþróttum, hefur tilkynnt um skipan HSK-liðsins á Landsmóti UMFÍ sem hefst á Selfossi í næstu viku. Gamla kempan Jón Arnar Magnússon er meðal liðsmanna HSK.
Frjálsíþróttalið HSK samanstendur af 47 einstaklingum, 21 konu og 26 körlum sem keppa samtals í 110 keppnisgreinum auk fjögurra boðhlaupa.
Helsta afreksfólk HSK verður að sjálfsögðu með og má þar fyrst nefna landsliðsfólkið Fjólu Signýju Hannesdóttur sem keppir m.a. í 100 og 400 m grindahlaupi, hástökki og boðhlaupum, Kristin Þór Kristinsson sem keppir í 400, 800 og 1500 m hlaupum og boðhlaupum og Hrein Heiðar Jóhannsson sem keppir m.a. í hástökki og langstökki.
Þingmaðurinn sprettharði, Haraldur Einarsson, er fremsti spretthlaupari HSK og kemur hann eflaust til með að blanda sér í toppbaráttuna en Haraldur keppir m.a. í 100 og 200 m hlaupi og boðhlaupum.
Þá er Guðmundur Árni Ólafsson, atvinnumaður í handbolta hjá úrvalsdeildarliði Mors-Thy í Danmörku, einnig í liði HSK en hann keppir í langstökki og þrístökki.
Af gömlum kempum sem dusta rykið af keppnisskónum að þessu sinni má nefna Sigurbjörn Árna Arngrímsson, afreksmann í millilvegalengdarhlaupum og íþróttalýsingum á RÚV, sem keppir í 800 m og 1500 m hlaupi. Guðbjörg Viðarsdóttir, fyrrum landsliðskona í kúluvarpi og kringlukasti, keppir í kringlukasti og Ólafur Guðmundsson, fyrrum landsliðsmaður í tugþraut, keppir í köstum, þrístökki og 110m grindahlaupi. Ólafur hefur reyndar ekkert ryk til að dusta af keppnisgallanum því hann hefur ekki enn lagt skóna á hilluna og keppir nú til að mynda í sjöunda sinn í þrístökki á landsmóti, 44 ára gamall.
Síðast en ekki síst mætir jafnaldri Ólafs, Jón Arnar Magnússon, Íslandsmethafi í tugþraut, til leiks og keppir fyrir HSK í kúluvarpi og kringlukasti. Jón Arnar þarf líklega ekki að kynna fyrir íþróttaáhugamönnum en hann var einn ástsælasti íþróttamaður landsins á sínum tíma, komst tvívegis á verðlaunapall á heimsmeistaramótinu í sjöþraut innanhúss, keppti á þrennum Ólympíuleikum og var tvívegis valinn íþróttamaður ársins. Jón Arnar er enn handhafi fimm Íslandsmeta í frjálsum íþróttum utanhúss. Síðasta Landsmót sem Jón Arnar tók þátt í var á Sauðárkróki 2004 en hann keppti síðast með HSK á Landsmótinu í Mosfellsbæ árið 1990.