Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson átti frábært mót í Frakklandi með íslenska landsliðinu í knattspyrnu. Landsliðið er komið heim, og það sem meira er, risastór mynd af Jóni Daða í landsliðsbúningnum prýðir nú stúkuna á JÁVERK-vellinum á Selfossi.
Myndin er hluti af styrktarsamningi knattspyrnudeildarinnar og Vífilfells en minnir um leið unga iðkendur á að leyfa sér að dreyma stóra drauma. Með miklum aga og aukaæfingum fór Jón Daði í gegnum yngri flokkana á Selfossi, upp í meistaraflokk og þaðan út í atvinnumennsku. Eftirleikinn þekkja nú allir en Jón Daði var ein af hetjum íslenska liðsins á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.
„Það var æðislegt. Þetta hefur verið þvílíkt ferðalag að spila fyrir framan svona marga Íslendinga sem syngja og tralla. Þetta var tilfinningaþrungið í lokin. Þegar maður horfir til baka þá er stutt síðan maður var að spila á Selfossi. Maður er núna að byrja sem framherji með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu og búinn skora mark. Það er gaman að upplifa svona,“ sagði Jón Daði í viðtali við fjölmiðla eftir að þátttöku Íslands lauk.
Myndin á norðurenda stúkunnar hefur vakið mikla athygli, en gangandi og hjólandi vegfarendur hafa margir gert sér leið í gegnum vallarsvæðið til þess eins að skoða hana.
TENGDAR FRÉTTIR:
Jón Daði vill knattspyrnu fyrir alla