Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnufélagið Reading FC sem leikur í Championship deildinni á Englandi.
Reading keypti Jón Daða frá Úlfunum fyrir ótilgreinda upphæð. Jón var í eitt tímabil hjá Úlfunum sem, eins og fleiri, heilluðust af góðri frammistöðu hans á Evrópumótinu í fyrrasumar.
„Ég er mjög ánægður með að hafa skrifað undir þriggja ára samning við Reading. Ég hlakka til að hitta liðið og byrja að leggja mig fram fyrir nýtt félag,“ sagði Jón Daði á Instagram síðu sinni.
Fyrsta verk Jóns Daða hjá Reading verður að fara upp í flugvél til Hollands, þar sem liðið er nú í æfingabúðum.
Á heimasíðu Reading segir Jaap Stam, framkvæmdastjóri félagsins, að Jón Daði sé leikmaður sem geti spilað í mörgum misjöfnum stöðum, bæði sem framherji og kantmaður. „Hann er sterkur hlaupari, hávaxinn en mjög leikinn með boltann. Hann verður mjög gagnleg viðbót við hópinn okkar,“ segir Stam.
Reading hefur áður haft Íslendinga í sínum röðum, t.d. Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson. Þekktasti leikmaðurinn sem hefur komið úr unglingaakademíu Reading er svo liðsfélagi Jóns Daða í íslenska landsliðinu, Gylfi Þór Sigurðsson.