Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson fékk matareitrun eftir fyrsta leikinn á Evrópumótinu í knattspyrnu síðasta sumar og var veikur stærstan hluta mótsins.
Þessu ljóstrar Selfyssingurinn upp í viðtali í Braga, ársriti Ungmennafélags Selfoss, sem kom út fyrr í mánuðinum. Jón Daði veiktist daginn fyrir leikinn gegn Ungverjum, sem var annar leikur Íslands á mótinu.
„Ég var ekkert að segja frá því á sínum tíma. Læknateymið vissi að sjálfsögðu af því og þjálfararnir líka,“ segir Jón Daði, en þessar upplýsingar komu hvergi fram á meðan á mótinu stóð.
Hann segir að líklega hafi sjávarréttasúpa sem hann fékk daginn fyrir leik verið sökudólgurinn.
„Ég hef lent á einhverjum bita sem var slæmur. Eftir að þetta gerðist þá var ég slæmur út keppnina. Ég var á dollunni allan daginn. Ég var í stöðugu sambandi við læknateymið og þjálfarana. Það var bara unnið í því að vökva sig meira en venjulega og borða meira en venjulega. Maður komst bara langt á því,“ rifjar hann upp.
„Í hvert einasta skipti sem ég fékk mér að borða þá þurfti ég að fara á klósettið tíu mínútum síðar. Þetta var skelfilegt. Þegar kom að leikjum þá held ég að það sem hafi hjálpað mér var bara adrenalínið og þrjóskan,“ segir Jón Daði.
Hann segir að þetta hafi tekið orku frá sér, þó að það hafi kannski ekki verið hægt að sjá það á leik hans í mótinu. Jón Daði viðurkennir að hann óttaðist að geta ekki spilað vegna veikindanna.
„Það var aðallega þegar ég fékk þetta fyrst. En síðan sá ég þegar ég spilaði Ungverjaleikinn að þetta gekk alveg. Þá var maður alveg öruggur. En þetta varði þvílíkt lengi og ég hélt að þetta myndi aldrei enda. Því þetta var alveg í marga daga, út allt mótið,“ segir Jón Daði ennfremur í ítarlegu viðtali í Braga.
Þrátt fyrir veikindin var Jón Daði í byrjunarliði Íslands það sem eftir lifði móts og skoraði meðal annars mark í 2-1 sigri Íslands á Austurríki.