„Mig langaði að gefa eitthvað til baka,“ segir Jón Daði Böðvarsson, knattspyrnumaður hjá Viking í Stavanger, en hann stofnaði á dögunum sjóð sem ber nafnið „Knattspyrna fyrir alla“.
Jón Daði notaði verðlaunaféð sem hann fékk fyrir að vera valinn íþróttakarl Árborgar árið 2012 til að stofna sjóðinn.
„Ég veit það með vissu að þónokkuð mikið af fólki hefur því miður of bágan fjárhag til þess að börnin þeirra geti fengið að æfa og það er búið að vera þannig í mörg ár,“ segir Jón Daði um ástæðuna fyrir stofnun sjóðsins.
„Sjóðurinn á að hjálpa börnunum að fá flest allt sem þau vantar varðandi fótboltann; skó, keppnisferðalög og svona,“ segir Jón Daði sem fékk hugmyndina ásamt móður sinni. „Vonandi mun þessi styrkur vekja athygli líka annars staðar á Íslandi og aðrir klúbbar geta tekið þetta til sín.“
Hugmyndin er að þrír aðilar muni vera yfir sjóðnum og ákveða um úthlutunanir. Enn á eftir að útfæra með hvaða hætti og eftir hverju verður farið þegar úthlutað verður úr sjóðnum. Óskar Sigurðsson, formaður Knattspyrnudeildar Selfoss, mun aðstoða Jón Daða með þau mál.