Jón Daði bauð liðsfélögum sínum sviðasultu

Jón Daði Böðvarsson. Ljósmynd/Twittersíða Reading

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson, leikmaður Reading á Englandi, mætti með sviðasultu á æfingasvæði liðsins í morgun við mismikla hrifningu manna á svæðinu.

Jón Daði var búin að skera sviðasultuna í litla bita og bauð leikmönnum og öðrum viðstöddum að smakka. Einhverjir smökkuðu sultuna og virtist bragðið koma á óvart.

Aðrir hinsvegar vildu ekki koma nálægt sviðasultunni og harðneituðu að smakka þegar Jón Daði bauð þeim.

– „Þú hefðir ekki átt að segja mér hvað er í þessu!“

– „Ekki séns að ég sé að fara að smakka þetta!“

– „Þetta er hræðilegt, algjörlega hræðilegt,“ var meðal þess sem að menn höfðu um málið að segja.

Fotbolti.net greindi frá þessari skemmtilegu uppákomu sem sjá má á Instagram-reikningi Jóns Daða: jondadib


Liðsfélagi Jóns Daða reynir að koma sviðasultunni niður. Mynd/jondadib

Fyrri greinSilfur og brons til sunnlensku keppendanna
Næsta greinFjórir slasaðir eftir árekstur í Ölfusinu