Jón Gunnþór Þorsteinsson, glímumaður úr Umf. Þjótanda, hampaði Skarphéðinsskildinum í fyrsta sinn þegar Héraðsmót HSK í glímu fór fram á Laugarvatni þann 23. febrúar síðastliðinn.
Á héraðsmóti HSK í glímu var keppt flokkum drengja og stúlkna frá 11 ára og yngri til unglingaflokka. Í fullorðinsflokkum var glímt um Bergþóruskjöldinn í kvennaflokki í 18. skipti og Skarphéðinsskjöldinn í karlaflokki í 95. skipti.
Jana Lind Ellertsdóttir Umf. Laugdæla sigraði kvennaflokkinn í fjórða sinn og Jón Gunnþór Þorsteinsson Umf. Þjótanda hampaði Skarphéðinsskildinum í fyrsta sinn.
Alls komu 44 keppendur til leiks frá fimm félögum á HSK svæðinu. Dómarar og ritarar komu úr röðum Skarphéðinsmanna og eru þeim þökkuð góð störf.