Fyrrum Hamarsmaðurinn Jón Kári Eldon skoraði eina mark leiksins þegar Hamar og Hvöt mættust á Grýluvelli í dag í 2. deild karla í knattspyrnu.
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill og markalaus en Hamar var nær því að skora eftir aukaspyrnu Helga Guðnasonar.
Sigurmark leiksins kom úr vítaspyrnu á 58. mínútu. Kristinn Kristinsson felldi þá sóknarmann Hvatar innan teigs og uppskar rautt spjald fyrir vikið. Jón Kári fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Eftir þetta var Hamar meira með boltann en fengu engin færi. Gestirnir voru hins vegar nær því að skora eftir nokkrar stórhættulegar skyndisóknir.
Hamar er nú í 9. sæti deildarinnar með 17 stig, á nokkuð lygnum sjó, en fimm stig eru í ÍH í öðru fallsætanna.