Jón Örn Ingileifsson og Sigurjón Þór Þrastarson féllu úr keppni í 3. umferð Íslandsmótsins í rallakstri sem fram fór í Skagafirði á laugardaginn.
Þeir félagar voru í 2. sæti í keppninni að lokinni fyrstu sérleið um Mælifellsdal þegar spyrna gaf sig að aftan í Mitsubishi bíl þeirra.
Þrátt fyrir að hafa fallið úr keppni eru Jón Örn og Sigurjón enn í 2.-3. sæti í heildarstigakeppni Íslandsmótsins en Hilmar B. Þráinsson og Davíð Þór Ríkharðsson juku forskot sitt um tíu stig eftir keppni helgarinnar. Þeir eru efstir með 28 stig en Jón Örn og Sigurjón hafa 14.
Jón Bjarni Hrólfsson og Selfyssingurinn Halldór Gunnar Jónsson féllu einnig úr keppni í Skagafirðinum þegar mótorinn festist í Subaru þeirra á fyrstu sérleið.