Jón Örn Ingileifsson og Sigurjón Þór Þrastarson eru í 4. sæti þegar fyrsta keppnisdegi alþjóðlega Rally Reykjavík er lokið.
Baráttan er hörð á toppnum en Jón og Sigurjón sem aka MMC Lancer Evo eru 56 sekúndum frá fyrsta bíl og 41 sekúndu frá þriðja sætinu. Fjórar sérleiðir voru eknar í dag og náðu Sunnlendingarnir besta tíma á einni þeirra, fyrri ferð um Gufunes.
Alþjóðarallið er löng og ströng keppni þar sem allt getur gerst en sérleiðir keppninnar eru samtals um 309 km.
Á morgun verður ekið um Suðurland, ekið austur Hengil kl. 7:40 og þaðan upp Næfurholt og inn á Dómadal þar sem eknar verða nokkrar ferðir áður en ekið er til baka, m.a. sérleið á Hellisheiði og endað aftur í Reykjavík.
Keppninni lýkur á laugardag en þá er ekið norðan Þingvalla og niður í Borgarfjörð og á Reykjanesi.