Jón Vignir með bæði mörkin í jafnteflisleik

Jón Vignir Pétursson. Ljósmynd/Selfoss Fótbolti

Selfoss heldur toppsætinu í 2. deild karla í knattspyrnu þrátt fyrir jafntefli gegn Víkingi í Ólafsvík í toppslag deildarinnar í kvöld.

Víkingar komust yfir á 17. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Staðan í leikhléi var 1-0 en Jón Vignir Pétursson var fljótur að breyta stöðunni í seinni hálfleiknum.

Selfoss fékk víti á 54. mínútu þegar markvörður Víkings braut á Aroni Vokes innan teigs, Jón Vignir steig á punktinn og skoraði af öryggi. Hann var aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar, Selfoss fékk þá hornspyrnu, boltinn barst út í miðjan vítateiginn og þar hamraði Jón knöttinn í netið af stuttu færi.

Leikurinn var í járnum í kjölfarið en á 88. mínútu áttu heimamenn góða sókn sem lauk með því að knötturinn lá í netinu hjá Selfyssingum. Bæði lið komu sér í góðar stöður á lokamínútunum en mörkin urðu ekki fleiri og 2-2 jafntefli niðurstaðan.

Eftir fjórar umferðir er Selfoss í toppsætinu með 10 stig en Víkingur er í 2. sæti með 8 stig, ásamt Ægi og Haukum.

Það er leikið þétt þessa dagana en næsti leikur Selfoss er heimaleikur gegn Þrótti Vogum næstkomandi fimmtudag.

Fyrri grein„Ekki vilji fyrir samtali um að ég myndi vera áfram“
Næsta greinTorfi með þrennu í stórsigri Hamars – Árborg gerði jafntefli