Selfyssingarnir Egill Blöndal og Þór Davíðsson unnu til verðlauna á Norðurlandamótinu í júdó sem fram fór í Finnlandi fyrir skömmu.
Á mótið fóru 23 íslenskir keppendur í flokkum undir 18 ára, undir 21 ára, kvennaflokkum og fullorðinsflokki. Frá Selfossi fóru fjórir keppendur en auk Þórs og Egils voru það þeir Grímur Ívarsson og Úlfur Böðvarsson.
Egill, sem varð Norðurlandameistari 2013 í flokki undir 18 ára, keppti nú í nýjum flokki eða undir 21 árs og var því á fyrsta ári í sínum flokki. Egill stóð sig að vanda frábærlega og barðist til úrslita í -90 kg flokki en varð að sætta sig við annað sæti á minnsta mögulega mun. Nokkuð bar á því að dómarar dæmdu með nokkuð öðrum hætti en okkar menn eru vanir og töpuðust glímur þess vegna.
Þór Davíðsson var öflugur að vanda og náði góðum árangri 3. sæti í -100 kg flokki í fullorðinna (seniora) á mótinu.
Í yngsta aldurflokknum áttu Selfyssingar tvo fulltrúa; Grím Ívarsson, sem er 16 ára og keppti í -81 kg flokki, og Úlf Böðvarsson, sem er 15 ára og keppti í -90 kg flokki. Þeir voru að fara í fyrsta sinn á Norðurlandamót og stóðu sig vel.
Júdómenn á Selfossi geta verið ánægðir með að hafa tekið tvö af fjórum verðlaunum Íslendinga á Norðurlandamótinu 2014.