„Kærkominn sigur við erfiðar aðstæður“

Þorsteinn Aron Antonsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í toppsæti 2. deildar karla í knattspyrnu, að minnsta kosti tímabundið, eftir góðan 0-1 útisigur gegn Fjarðabyggð á Eskifirði í dag.

„Þetta var kærkominn sigur við erfiðar aðstæður. Það var mikið rok og völlurinn þungur þannig að það var frábært að klára þetta. Við vorum mikið sterkari í fyrri hálfleik en ég viðurkenni alveg að þeir lágu aðeins á okkur í lokin. Það var sætt að klára þetta og komast á toppinn,“ sagði Einar Ottó Antonsson, aðstoðarþjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar mættu ákveðnir til leiks og réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik. Þorsteinn Aron Antonsson kom þeim yfir á 22. mínútu með góðu skallamarki eftir aukaspyrnu utan af velli.

Staðan var 0-1 í hálfleik og hvorugu liðinu tókst að skora í síðari hálfleik en sóknarlotur Fjarðabyggðar þyngdust jafnt og þétt eftir því sem leið á leikinn.

Selfyssingar eru í toppsæti deildarinnar með 31 stig, þremur stigum meira en Kórdrengir sem eru í 2. sæti en eiga leik til góða. Fjarðabyggð er í 7. sæti með 21 stig.

Fyrri greinStjörnuhrap hjá Selfyssingum
Næsta greinMyndlistarnemar úr FSu sýna í Listagjánni