„Það er mjög gaman að sjá hvað börnin eru áhugasöm. Allir taka þátt og öllum finnst gaman í blaki,‟ segir Óli Þór Júlíusson, verkefnastjóri hjá Blaksambandi Íslands og annar tveggja umsjónarmanna Skólablaksins.
Í síðustu viku var Skólablakið í Hamarshöllinni í Hveragerði og tók hópur nemenda í 4.–6. bekk grunnskólans í Hveragerði og Kerhólaskóla í Borg á Grímsnesi þátt í viðburðinum ásamt kennurum og forystufólki úr blakdeild Hamars.
Á meðal þeirra voru Barbara Meyer, formaður blakdeildar Hamars, og tvíburabræðurnir Kristján og Hafsteinn Valdimarssyni. Auk þess var með í för Borja Gonzales Vicente, þjálfari U19 ára landsliðs kvenna og A-landsliðs kvenna í blaki.
Þúsundir fræðast um blak
Skólablakið er röð lítilla blakviðburða sem haldnir verða um allt land í október. Vel hefur tekist til við það og búið að plana að hafa það á dagskrá næstu fjögur árin.
Markmið Skólablaksins er að auka þátttöku krakka í blak á landsvísu með því að hafa leikreglurnar einfaldar og þægilegar þannig að öll getustig ráði við leikinn. Auk þess er að sjálfsögðu markmið að búa til skemmtilegan viðburð fyrir krakkana og að þau fái ánægjulega upplifun af hreyfinu og keppni.
Gert er ráð fyrir nokkuð hundruð grunnskólanemendur á Skólablakið hverju sinni. Dagskráin er þétt og er því reiknað með að þúsundir grunnskólabarna um allt land muni kynnast blakíþróttinni á næstu árum.
Blaksambandið í samstarfi við CEV, ÍSÍ, UMFÍ, BeActive og blakfélögin í hverju bæjarfélagi standa fyrir Skólablakinu. Ölgerðin og Kristall eru bakhjarlar verkefnisins.
Á heimasíðu UMFÍ má sjá myndir frá viðburðinum í Hamarshöllinni.