Ungmennafélag Selfoss er 88 ára í dag en félagið var stofnað þann 1. júní árið 1936. Í tilefni dagsins bauð sögu- og minjanefnd í kaffi og köku í Selinu við Engjaveg í morgun.
Þangað var boðið heiðursfélögum eða fulltrúum þeirra ásamt jólasveina- og þrettándanefndinni, sem hefur starfað í óbreyttri mynd frá árinu 1977.
GK bakarí bakaði glæsilega afmælistertu og síðan var sest að kaffidrykkju, þar sem margar góðar sögur frá fyrri tíð fengu að fljúga.
Í máli Björns Inga Gíslasonar, formanns sögu- og minjanefndar kom fram að mikill hugur sé hjá nefndinni um að 90 ára afmæli ungmennafélagsins árið 2026 verði gert hátt undir höfði og að ekki sé seinna vænna en að fara að leggja drög að dagskrá afmælisársins.