Hamar fikrar sig upp stigatöfluna í 1. deild karla í körfubolta en í kvöld vann liðið ÍA á útivelli, 91-99.
Halldór Gunnar Jónsson fann sig vel gegn sínum gömlu félögum í kvöld. Hann skoraði átta fyrstu stig Hamars en Hvergerðingar náðu snemma góðri forystu, 9-23. Skagamenn minnkuðu muninn áður en 1. leikhluta lauk og staðan var 18-27 að honum loknum.
Hamarsliðið var sterkara í 2. leikhluta og náði mest 18 stiga forskoti, 30-48, en heimamenn héldu sér inni í leiknum með átta stigum í röð undir lok fyrri hálfleiks. Staðan var 38-53 í leikhléinu.
Hamar hélt forystunni allan 3. leikhluta en Skagamenn söxuðu jafnt og þétt á forskotið. Munurinn var 11 stig, 67-78, þegar síðasti leikhlutinn hófst og ÍA minnkaði hann í 6 stig á fyrstu mínútum 4. leikhluta. Á lokamínútunni var munurinn fjögur stig en nær komust Skagamenn ekki og Hamar skoraði síðustu fjögur stig leiksins.
Brandon Cotton var stigahæstur hjá Hamri með 33 stig, Halldór Gunnar Jónsson skoraði 18 og Louie Kirkman 17.