Kvennalið Hamars í körfubolta tapaði með nítján stiga mun þegar liðið heimsótti Val að Hlíðarenda í Domino's-deildinni í gærkvöldi. Lokatölur vour 67-48.
Valur skoraði níu fyrstu stigin í leiknum en Hamar minnkaði muninn í 10-8 þegar um fimm mínútur voru liðnar. Valur skoraði hins vegar síðustu fimm stigin í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum, 15-8. Valur skoraði fyrstu fjögur stigin í 2. leikhluta og komst fljótlega í 31-12 en staðan í hálfleik var 32-16.
Andrina Rendon skoraði fyrstu sjö stigin í síðari hálfleik þar sem Hamar minnkaði muninn í níu stig, 32-23. Munurinn varð minnstur sjö stig í 3. leikhluta, 40-33 en Valur skoraði síðustu tíu stigin í leikhlutanum og leiddi 50-33 þegar sá fjórði hófst. Hamar náði að minnka muninn í ellefu stig í upphafi fjórða leikhluta, 50-39, en nær komust Hvergerðingar ekki og valur vann að lokum öruggan sigur.
Rendon var stigahæst hjá Hamri með 23 stig og 10 fráköst. Sóley Guðgeirsdóttir skoraði 7 stig, Salbjörg Sævarsdóttir 6, auk þess að taka 10 fráköst, Katrín Eik Össurardóttir skoraði 4 stig, Þórunn Bjarnadóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir 3 og Jóna Sigríður Ólafsdóttir 2.
Næsti leikur Hamars er á morgun, miðvikudag kl. 19:15, þegar Breiðablik kemur í heimsókn.