Selfyssingar fengu ekki blíðar móttökur á Seltjarnarnesinu í kvöld þegar þeir heimsóttu Gróttu í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Gróttumenn höfðu góð tök á leiknum lengst af og unnu öruggan 3-0 sigur.
Leikurinn fór rólega af stað en Gróttumenn voru líklegri og þeir komust yfir á 15. mínútu eftir góða sókn. Selfyssingar hresstust nokkuð í kjölfarið en náðu ekki lokahnykknum á sínar sóknir. Það gátu Gróttumenn hins vegar á 45. mínútu þegar þeir bættu við öðru marki og staðan var 2-0 í hálfleik.
Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum en náðu ekki að skapa sér mörg góð færi. Grótta bætti við þriðja markinu á 77. mínútu eftir mistök í vörn Selfoss og gerði þar með endanlega út um leikinn. Selfoss átti fékk ágæt færi á lokamínútunum en Gróttumenn voru sannfærandi og kláruðu leikinn af öryggi.
Úrslitin urðu til þess að Selfoss missti Gróttu uppfyrir sig á töflunni, og rúmlega það. Selfoss er í 4. sæti með 21 stig en Grótta í 2. sæti með 22 stig, eins og HK sem er í 3. sæti en á leik til góða. Það verður því spennandi viðureign á Selfossi að viku liðinni, þegar HK kemur í heimsókn.