KR jafnaði metin í einvíginu við Hamar um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta í HVeragerði í kvöld. Vestubæjarliðið hafði frumkvæðið allan leikinn og sigraði 69-81.
Liðin hafa nú unnið sinn leikinn hvort á útivelli en heimavöllurinn hefur ekki skipt miklu máli í leikjum liðanna í vetur. Liðin hafa mæst sex sinnum í vetur og alltaf hefur gestaliðið haft sigur.
KR byrjaði leikinn af krafti með grimmum varnarleik og baráttu um hvern einasta bolta. KR tók átta sóknarfráköst sem skiluðu körfum í kjölfarið en Hamarsliðið var einfaldlega ekki mætt til leiks.
Skammarræða Ágústs Björgvinssonar að loknum fyrsta fjórðungi var ekki prenthæf en þrátt fyrir ræðuna svöruðu Hamarskonur aldrei kallinu. Skotnýtingin var hrikaleg í fyrri hálfleik og KR átti alla lausa bolta undir körfunum. Það vakti reyndar athygli að bæði lið tóku fleiri sóknar- en varnarfráköst í leiknum og KR konur rifu niður 50 fráköst í leiknum.
Staðan var 30-42 í hálfleik en jafnræðið var meira í seinni hálfleik. Julia Demirer vaknaði þá til lífsins en framlag hennar dugði skammt. Kristrún Sigurjónsdóttir sneri sig illa á ökkla í fyrri hálfleik en kláraði leikinn án þess að geta beitt sér af fullum krafti og munaði um minna.
Koren Schram var stigahæst hjá Hamri með 19 stig og Julia Demirer skoraði 15 stig og tók 11 fráköst.
Liðin mætast næst í DHL höllinni á miðvikudagskvöld.