KR sigraði í kvöld lið Hamars, 83-61, í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna og tóku þar með forystu í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn, 2-1.
KR var feti framar allan tímann í kvöld með Unni Töru Jónsdóttur funheita í sókninni. Hamar lék án Guðbjargar Sverrisdóttur, sem var veik, og Julia Demirer spilaði aðeins átta mínútur en hún glímir við meiðsli auk þess að vera lasin.
Staðan í hálfleik var 42-35 en KR konur juku forskotið jafnt og þétt í síðari hálfleik.
Koren Schram skoraði 19 stig fyrir Hamar, Sigrún Ámundadóttir 15 og Kristrún Sigurjónsdóttir 13.
KR getur hampað titlinum á laugardaginn með sigri í Hveragerði. Jafni Hamar metin verður oddaleikur á þriðjudaginn eftir páska.