Stórhlauparinn Kári Steinn Karlsson ætlar að halda fyrirlestur um langhlaup í Sunnulækjarskóla í kvöld kl. 20.
Fyrirlesturinn er á vegum hlaupahópsins Frískir Flóamenn.
Kári Steinn hljóp nýverið sitt fyrsta maraþon í Berlín þar sem hann setti glæsilegt Íslandsmet og tryggði sér jafnframt rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í London 2012.
Kári Steinn ætlar m.a. að tala um bakgrunn sinn og feril til þessa, ýmsa punkta varðandi æfingar, matarræði og hugarfar, undirbúning fyrir Berlínarmaraþonið og hvað er framundan hjá honum.
Kári Steinn hefur orðið Íslandsmeistari í 1.500 m, 3.000 m innanhús, 5.000 m, 10.000 m, hálfmaraþoni, víðavangshlaupi, 4×800 m og 4×1500 m.
Hann á Íslandsmet í sex vegalengdum auk fjölda unglingameta og þá er hann smáþjóðaleikameistari í 5.000 m og 10.000 m og verðlaunahafi á Norðurlandamótum. Hann hefur sigrað í öllum helstu götuhlaupum hérlendis og hefur ekki tapað götuhlaupi á Íslandi síðan 2003.
Kári Steinn er fæddur árið 1986. Hann hefur verkfræðipróf frá Berkeley í Kaliforníu þar sem hann æfði og keppti í fjögur ár.
Fyrirlesturinn er opin öllum og aðgangur er ókeypis