Selfyssingurinn Karolína Helga Jóhannsdóttir og félagar hennar í kvennaliði Íslands í hópfimleikum tryggðu sér í morgun Evrópumeistaratitilinn á EM í Baku í Azerbaijan.
Þetta er í fjórða sinn sem kvennalandsliðið verður Evrópumeistari en úrslitakeppnin var mjög hörð. Ísland fékk 0.450 stigum meira en Svíþjóð sem varð í 2. sæti og Norðmenn hömpuðu síðan bronsinu.
Ísland sló keppninautum sínum við með frábærri frammistöðu í stökki og gólfæfingum. Ísland fékk 18.600 stig fyrir gólfæfingar, 18.250 stig fyrir stökk og 17.000 stig fyrir trampólín.
Í morgun kepptu Birta Sif Sævarsdóttir og Silvia Rós Nokkala Valdimarsdóttir í úrslitum með blönduðu liði fullorðinna og varð íslenska liðið í 5. sæti.
Selfyssingar áttu fjölda fulltrúa á mótinu í Azerbaijan en átta keppendur, þrír þjálfarar og einn dómari frá fimleikadeild Selfoss tóku þátt í mótinu sem lauk í dag.