Selfoss vann mikilvægan sigur í botnbaráttu Olísdeildar kvenna, þegar HK kom í heimsókn í Set-höllina í dag. Bæði lið voru með 2 stig fyrir leikinn og ljóst að tapliðið í dag yrði á botni deildarinnar eftir leik.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, liðin skiptust um að hafa frumkvæðið en munurinn var aldrei meiri en tvö mörk og jafnt á flestum tölum. Selfoss leiddi 15-14 í hálfleik.
Það skildi fyrst almennilega á milli í upphafi seinni hálfleiks en Selfoss skoraði fyrstu þrjú mörkin og breytti stöðunni í 18-14. HK náði ekki að svara fyrir sig á meðan heimakonur bættu bara í og Selfoss náði mest tíu marka forskoti, 30-20.
Á síðustu tíu mínútunum dró aðeins saman með liðunum og HK skoraði tvö síðustu mörk leiksins en lokatölurnar urðu 32-26, öruggur sigur Selfoss.
Katla María Magnúsdóttir fór á kostum í liði Selfoss, skoraði 12/2 mörk og sendi 4 stoðsendingar. Rakel Guðjónsdóttir skoraði 6 mörk, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 6/1, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Kristín Arna Einarsdóttir 2 og þær Inga Sól Björnsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoruðu 1 mark hvor en Elínborg var sömuleiðis firnasterk í vörninni með 6 löglegar stöðvanir og 1 blokkað skot. Cornelia Hermansson varði 13 skot í marki Selfoss og var með 36% markvörslu.
Selfoss er nú í 7. sæti deildarinnar með 4 stig, jafnmörg stig og KA/Þór og Haukar, en HK er áfram á botninum með 2 stig.