Katrín og Hanna með stórleik í fyrsta sigri Selfoss

Katrín Ósk Magnúsdóttir var frábær í marki Selfoss í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sinn fyrsta sigur í Olísdeild kvenna í handbolta þegar liðið sótti Íslandsmeistara Fram heim í Safamýrina í kvöld. Lokatölur urðu 24-25.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir átti stórleik fyrir Selfoss en hún skoraði 13 mörk og þar af aðeins eitt af vítalínunni. Katrín Ósk Magnúsdóttir var líka stórkostleg í marki Selfoss og varði 21/2 skot.

Fram byrjaði betur í leiknum og komst í 3-0 en Selfoss skoraði þá fjögur mörk í röð og gerði svo 6-1 áhlaup í kjölfarið. Staðan var þá orðin 6-10 en staðan var 11-13 í leikhléi.

Fram skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og jafnaði 13-13 en Selfyssingar slóu hvergi af og juku forskotið aftur. Katrín Ósk var frábær í markinu á þessum tímapunkti og Selfoss náði aftur tveggja marka forskoti.

Fram jafnaði 19-19 en Katrín hélt áfram að verja og Selfoss náði fjögurra marka forskoti, 20-24 þegar fjórar mínútur voru eftir. Lokakaflinn var spennandi en Selfoss náði að halda sínu og sigra að lokum með einu marki.

Hrafnhildur Hanna skoraði sem fyrr segir 13/1 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir, Sarah Boye Sörensen og Perla Ruth Albertsdóttir 3, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 2 og Ída Bjarklind Magnúsdóttir 1.

Katrín Ósk varði 21/2 skot og var með 46% markvörslu.

Selfoss hefur nú 3 stig í 7. sæti deildarinnar en Fram er í 3. sæti með 10 stig.

Fyrri greinVörubíll ók á rafmagnslínu
Næsta greinFarið fram á framlengt gæsluvarðhald