Katrín Ýr Friðgeirsdóttir hélt uppteknum hætti og skoraði þrjú mörk í 5-2 sigri Selfoss á Sindra í kvöld í 1. deild kvenna í knattspyrnu.
Liðin mættust á Selfossvelli og það var heimaliðið sem komst yfir þegar Dagný Hróbjartsdóttir lagði boltann fyrir Katrínu sem kláraði færið vel. Sindrakonur jöfnuðu skömmu síðar með góðu marki en Selfoss komst aftur yfir skömmu fyrir leikhlé. Þar var að verki Thelma Sif Kristjánsdóttir eftir hornspyrnu.
Selfyssingar voru líklegri framan af síðari hálfleik og þær gerðu nánast út um leikinn með tveimur glæsimörkum á tveggja mínútna kafla. Á 58. mínútu fékk Katrín Ýr boltann vel fyrir utan teig og smellti honum í þverslána og inn. Tveimur mínútum síðar tók Guðmunda Brynja Óladóttir á sprett innfyrir vörn Sindra og hamraði knöttinn í netið.
Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka minnkaði Sindri muninn í 4-2 eftir klaufagang í vörn Selfoss. Sindrakonur héldu boltanum betur þegar leið á seinni hálfleik án þess að fá nokkur teljandi færi. Það var hinsvegar Katrín Ýr sem átti síðasta orðið. Hún innsiglaði þrennuna á 88. mínútu þegar Guðbjörg Una Hallgrímsdóttir stakk boltanum glæsilega í gegnum Sindravörnina þar sem Katrín var á auðum sjó og skoraði.
Katrín Ýr hefur verið iðin við kolann í sumar en hún hefur skorað ellefu mörk í fyrstu fimm leikjum Selfoss í deild og bikar.