Hamar tapaði 73-61 þegar liðið heimsótti Keflavík í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í kvöld.
Leikurinn var hin ágætasta skemmtun framan af og var mikil barátta hjá báðum liðunum. Keflavík var þó í bílstjórasætinu fyrstu þrjá leikhlutana en Hamar, sem reyndi að klóra í bakkann, átti þann fjórða. Staðan var 43-29 í hálfleik.
Staðan fyrir síðasta leikhlutann var 62-41 og virtist allt benda til öruggs sigurs Keflavíkur. Hamarskonur röðuðu hins vegar niður þristum í síðasta fjórðungnum og minnkuðu þær muninn í 66-53. Þegar rúm mínúta var eftir af leiknum var staðan 69-60 og Hamar á þvílíkri siglingu. En Keflavík kláraði leikinn og lokatölur urðu 73 -61.
Hjá Hamri var Katherine Graham stigahæst með 15 stig, Samantha Murphy var síðan með 13 stig og þær Íris Ásgeirsdóttir og Marín Laufey Davíðsdóttir voru báðar með 11 stig.