Hamar lék sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla í körfubolta í tólf ár þegar liðið fékk Keflavík í heimsókn í 1. umferð Íslandsmótsins í kvöld.
Hamar byrjaði leikinn af krafti og leiddi nær allan fyrri hálfleikinn en staðan var 59-52 í leikhléi. Hvergerðingar héldu forskotinu lengst af 3. leikhluta en undir lok hans komust Keflvíkingar á skrið og leiddu 86-89 þegar síðasti leikhlutinn hófst. Þar reyndust Keflvíkingar sterkari og unnu að lokum með átta stiga mun, 103-111.
Maurice Creek átti frábæra frumraun fyrir Hamar, skoraði 34 stig og tók 11 fráköst. Franck-David Nana skoraði 24 stig og sendi sjö stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson skoraði 16 stig og tók 6 fráköst og Danero Thomas skoraði 13 stig og tók 11 fráköst.