Selfyssingar töpuðu fyrir toppliði Keflavíkur í Pepsi-deild karla í kvöld, 2-1. Sigur heimamanna var verðskuldaður en Selfyssingum gekk ekkert að skapa færi.
Fyrir leik: Leikmenn Selfoss virðast hafa rifið af sér pestina því Guðmundur Benediktsson, þjálfari, teflir fram óbreyttu byrjunarliði. Það er strekkingur og kuldi hér suður með sjó og kemur kannski engum á óvart. Ennþá óvæntari tíðindi er að það er að byrja að rigna.
Fyrri hálfleikur: Leikurinn var ákaflega tíðindalaus framan af enda rok hér í Njarðvík og leikmenn nokkra stund að ná áttum í vindinum. Selfyssingar áttu þó fyrstu hálffærin en á 20. mínútu gerðist það sem allir Keflvíkingar óttuðust. Árni Freyr, markvörður Keflavíkur, missti boltann yfir sig og Sævar Þór Gíslason gat ekki fyrirgefið honum það. Sævar hirti boltann fyrir opnu marki og skoraði… tja, auðveldlega.
Eftir þetta tóku Keflvíkingar öll völd á vellinum og á 31. mínútu jafnaði Paul McShane eftir að Selfyssingar klikkuðu á að hreinsa frá markinu. Áfram sóttu Keflvíkingar og Selfossliðið var stálheppið að lenda ekki undir, ítrekað. Jóhann Ólafur var með hanskana í öllum boltum Keflavíkur og Agnar Bragi fór fremstur í hinu svokallaða nauðvarnarafbrigði.
Selfyssingar voru væntanlega fegnir þegar Jóhannes Valgeirsson flautaði til leikhlés. Þeir fá nú færi á að stilla sig af en Keflvíkingar verða væntanlega stórhættulegir í seinni hálfleik með rokið í bakið.
Seinni hálfleikur: Keflvíkingar byrjuðu betur og uppskáru mark á 54. mínútu. Boltanum var vippað yfir Jóhann í markinu og í þverslána. Það var Hörður Sveinsson sem var fyrstur að átta sig og rúllaði boltanum í netið. Klaufalegt hjá Selfyssingum en forysta Keflvíkinga verðskulduð. Eftir þetta áttu Keflvíkingar þrjú meinlaus skot að marki en á 64. mínútu gerðu Selfyssingar tvöfalda skiptingu. Einar Ottó og Ingi Rafn komu inná fyrir Arilíus og Jón Guðbrands. Við þetta hresstust Selfyssingar töluvert og náðu yfirhöndinni í leiknum. Færin létu hins vegar á sér standa og Selfyssingar nýttu sér ekki föst leikatriði sem hefðu getað skapað hættu.
Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Arilíus Marteinsson (Ingi Rafn Ingibergsson +64), Agnar Bragi Magnússon, Andri Freyr Björnsson, Ingólfur Þórarinsson, Sævar Þór Gíslason (Davíð Birgisson +82), Guðmundur Þórarinsson, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Jón Daði Böðvarsson, Jón Guðbrandsson (Einar Ottó Antonsson +64).
Byrjunarlið Keflavíkur: Árni Freyr Ásgeirsson (M), Alen Sutej, Guðjón Antoníusson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Paul McShane, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Hörður Sveinsson.