Kemur með demantinn heim á Selfoss

Einar Bárðarson og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, skrifuðu undir samninginn. Ljósmynd/Mummi Lú

Í dag var brautarskoðun og samhjól á vegum KIA Gullhringsins á Selfossi. Væntanlegir keppendur skoðuðu brautir keppninnar í sumar og reyndu sig í þeim.

Við það tækifæri var keppnin formlega boðin velkomin í Árborg. Skrifað var undir samstarfssamning á milli keppnishaldara og Sveitarfélagsins Árborgar sem tryggir það að Árborg verður heimavöllur KIA Gullhringsins næstu ár.

„Við skrifuðum undir samstarfssamning við sveitarfélagið en hann gerir okkur kleift að halda áfram uppbyggingu fjölmennasta og skemmtilegasta hjólreiðamóts landsins. Í ár fer keppnin fram laugardaginn 10. júlí en það er einmitt í tíunda sinn sem keppnin er haldin,“ sagði Einar Bárðarson, skipuleggjandi keppninnar, í samtali við sunnlenska.is.

Glaðværir gestir í afreksgleði
„Þessi samningur er ekki ólíkur þeim sem við höfum verið að vinna með í Hengil Ultra, stærsta utanveghlaupi landsins, en það fer fram í Hveragerði fyrstu helgina í júní ár hvert. En samningarnir eru í raun þríhliða, ef svo mætti að orði komast, sveitarfélögin leggja ákveðna upphæð í aðstoð við uppsetningu, frágang, brautvöktun og öryggisgæslu sem öll er keypt af íþróttafélögum og björgunarsveitum í viðkomandi sveitarfélagi. Það gerir okkur kleift að einbeitta okkur af því að byggja upp og efla mótin á alla vísu, sem síðan draga hundruð keppenda og fjölda gesta í sveitarfélögin til að njóta. Íþróttafélögin fá tækifæri til að sinna mannfrekum en auðveldum verkefnum sem eflir tekjustreymi inn til þeirra. Verslun, veitingastaðir, hótel og önnur þjónusta fyllast af glaðværum gestum í afreksgleði,“ bætir Einar við.

Risamót á næstu tveimur árum
„Bæjaryfirvöld í Árborg og í Flóahreppi hafa tekið okkur fagnandi og í samráði við lögreglu og Vegagerðina getum við boðið keppendum mun meira öryggi á vegunum um Flóann heldur en hægt var að tryggja á honum umferðaþunga Gullhring. En við kveðjum vitanlega Laugarvatn og Bláskógabyggð með söknuði. Þar var okkur alltaf tekið vel en allt hefur sinn tíma,“ segir Einar.

„Það hefur verið frábært að vinna með Hveragerðisbæ í uppbyggingunni á Hengli og á aðeins örfáum árum tókst okkur að gera Hengil Ultra að stærsta viðburði utanvegahlaupara og þangað stefna núna 1.350 keppendur fyrstu helgina í júní. Við ætlum okkur að gera KIA Gullhringinn að 1.000 til 1.400 keppenda móti á næstu tveimur árum. Það dugar ekkert minna úr því að maður kemur með demantinn sinn heim á Selfoss,” segir Einar Bárðarson að lokum.

Ljósmynd/Mummi Lú
Ljósmynd/Mummi Lú
Ljósmynd/Mummi Lú
Ljósmynd/Mummi Lú
Ljósmynd/Mummi Lú
Fyrri greinMenam opnar í mathöllinni
Næsta greinÞórsarar sprækir gegn nöfnum sínum