Keppendur frá Héraðssambandinu Skarphéðni höfðu algjöra yfirburði í frjálsíþróttakeppni Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum sem lauk í gær.
HSK fékk langflest verðlaun í frjálsíþróttakeppninni, samtals 133, en sunnlensku krakkarnir unnu 46 gullverðlaun, 46 silfurverðlaun og 41 bronsverðlaun.
Margir keppendur bættu sinn besta árangur umtalsvert en helst ber þar að nefna að Eva María Baldursdóttir setti Íslandsmet í þrístökki 14 ára stúlkna þegar hún stökk 11,42 m.
Sebastian Þór Bjarnason setti mótsmet í langstökki 13 ára pilta, stökk 5,45 m og Sindri Freyr Seim Sigurðsson setti mótsmet í 200 m hlaupi 14 ára pilta, hljóp á 25,10 sek.
Þá setti Dagur Fannar Einarsson mótsmet í 200 m hlaupi 15 ára pilta, hljóp á 24,65 sek og hann var einnig í boðhlaupssveitinni Suicide Squad sem setti mótsmet í 4×100 metra boðhlaupi 15 ára á 47,50 sek. Með honum í sveitinni voru Hákon BIrkir Grétarsson, Kolbeinn Loftsson og Jónas Grétarsson.
Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum var slitið í gærkvöldi en á næsta ári verður mótið haldið í Þorlákshöfn.