Keppendur HSK unnu átta verðlaun á Iceland Open

Heiðrún Fjóla og Gústaf unnu til fjölda verðlauna á mótinu. Ljósmynd/HSK

Iceland Open í glímu og hryggspennu í unglinga- og fullorðinsflokkum fór fram um síðustu helgi í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Þrír keppendur kepptu frá HSK, þau Heiðrún Fjóla Pálsdóttir, Gústaf Sæland og Björn Mikael Karlsson. Þau stóðu sig vel og komust átta sinnum á verðlaunapall með þrjú gull, þrjú silfur og tvö brons.

Á föstudagskvöldi var æfing í hryggspennu sem glímufólk keppir í ef það ferðast erlendis til að keppa.

Á laugardeginum var keppt í glímu. Heiðrún Fjóla keppti í tveimur flokkum, +75kg flokki kvenna og opnum flokki kvenna, hún hafnaði í 2. sæti í þeim báðum. Gústaf keppti einnig í tveimur flokkum, -84kg flokki karla og opnum flokki karla, hann varð í 3. sæti í þyngdarflokknum og varð annar í opnum flokki.

Að loknu móti var önnur æfing í hryggspennu, hópurinn skellti sér síðan í sund og út að borða saman.

Á sunnudeginum var keppt í hryggspennu. Heiðrún gerði sér lítið fyrir og vann bæði +75kg flokk kvenna og opna flokk kvenna. Gústaf skráði sig í þrjá flokka, hann sigraði -84kg flokkinn sem var fjölmennasti flokkur mótsins, varð í 4. sæti í +84kg flokki karla og í 3. sæti í opnum flokki karla. Björn Mikael skráði sig óvænt til leiks í hryggspennu og varð í 4. sæti í sínum riðli í -84kg flokki karla.

Næsti viðburður í glímu eru æfingabúðir fyrir öll þau sem hafa áhuga á að prófa eða æfa glímu. Æfingabúðirnar fara fram helgina 15.-17. nóvember í Reykholti. Hægt er að fylgjast með mótum og viðburðum Glímusambands Íslands á Facebook og Instagram.

Ef einhver hefur áhuga á að prófa glímu eru æfingar á nokkrum stöðum á Suðurlandi og hægt að nálgast æfingatíma á samfélagsmiðlum og á heimasíðu sambandsins.

Mót á vegum Glímuráðs í vetur
Mið 27. nóv kl 17 Fjórðungsglíma á Hvolsvelli
Mið 12. feb kl 10 Grskólamót HSK í Reykholti
Þri 4. mars kl 17 Héraðsmót á Laugalandi

Fyrri greinGarðyrkja og myndlist í hversdeginum
Næsta greinFátæki drengurinn sem varð alþingismaður