Ólafur B. Loftsson, NK og Þórdís Geirsdóttir, GK, sigruðu á Opna Heimsferðamótinu sem leikið var á Selfossi og í Hveragerði sl. sunnudag.
Alls tóku 93 kylfingar þátt í mótinu þar sem spilaðar voru 9 holur í Hveragerði og 9 holur á Svarfhólsvelli og voru þátttakendur ánægðir með þá tilbreytingu að keppa á tveimur völlum í einu móti.
Skorið var gott hjá keppendum en veðrið var upp á sitt besta. Ólafur sigraði í karlaflokki án forgjafar á 69 höggum, eða tveimur undir pari. Þórdís lék á 75 höggum, fjórum yfir pari, og sigraði í kvennaflokki án forgjafar.
Í punktakeppni komu liðsmenn Golfklúbbs Selfoss sterkir inn. Ögmundur Kristjánsson, GOS, sigraði á 39 punktum og Bjarni Auðunsson, GOS, varð annar á 38 punktum.
Næstur holu á 9. holu í Hveragerði var Rafn Rafnson, 3,47 m frá holu en næst 4. holu á Selfossi var Sigríður Jensdóttir, 1,05 m frá holu.