KFG lagði KFR

Knattspyrnufélag Rangæinga tapaði 0-1 í kvöld þegar liðið tók á móti KFG í 3. deild karla í knattspyrnu á Hvolsvelli.

Gestirnir byrjuðu betur og komust yfir strax á 5. mínútu eftir mikinn darraðardans í vítateig KFR.

Eftir markið skiptust liðin á að sækja en þrátt fyrir að leika einn sinn besta leik í sumar náðu Rangæingar ekki að skora mark.

Lárus Viðar Stefánsson komst næst því að skora þegar hann skallaði boltann í rammann á KFG markinu en inn fór boltinn ekki. Gestirnir áttu sömuleiðis skot í tréverkið en lokatölur voru sem fyrr segir 0-1.

Vésteinn Hauksson, þjálfari KFR, stýrði liði sínu af bekknum og uppskar rautt spjald fyrir mótmæli. Hann fer væntanlega í tveggja leikja bann þar sem þetta er önnur brottvísun hans í sumar.

Fyrri greinEinar Andri í Árborg
Næsta greinEkki verkfall á Suðurlandi