Það var nokkuð hátt fall þegar karlalið Hamars féll úr leik í Powerade bikarnum í körfubolta í kvöld. Hamar steinlá gegn KFÍ á Ísafirði, 104-69.
Heimamenn byrjuðu betur og komust í 21-10 en þá svaraði Hamar með níu stigum í röð. Staðan var 24-19 eftir 1. leikhluta. Heimamenn juku forskot sitt í 2. leikhluta, komust í 46-28 en staðan í hálfleik var 52-35.
Jafnræði var með liðunum framan af 3. leikhluta en þegar fimm mínútur voru liðnar af honum kláruðu Ísfirðingar leikinn með 13-0 kafla, breyttu stöðunni í 77-45 og náðu skömmu síðar 36 stiga forskoti.
Þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 89-53 en Hvergerðingar náðu að minnka muninn um eitt stig á síðustu tíu mínútunum.
Louie Kirkman var bestur í liði Hamars með 21 stig og 14 fráköst. Halldór Gunnar Jónsson skoraði 14, Bjarni Lárusson 8, Kristinn Runólfsson 7 og þeir Lárus Jónsson, Ragnar Nathanaelsson, Mikael Kristjánsson og Bjartmar Halldórsson skoruðu allir 4 stig. Svavar Páll Pálsson átti ágætan leik með 3 stig og 10 fráköst.