
Bikarkeppni karla í knattspyrnu hófst í kvöld og sunnlensku liðin KFR, Stokkseyri og Árborg voru öll mætt til leiks. Rangæingar komust áfram í 2. umferð en Stokkseyri og Árborg er úr leik.
KFR heimsótti Skautafélag Reykjavíkur á Þróttaravöllinn í Laugardal og þar blés ekki byrlega í upphafi hjá KFR. Skautafélagið komst í 2-0 á fyrsta hálftímanum en Rangæingar voru þó fljótir að rétta sinn hlut. Hjörvar Sigurðsson minnkaði muninn á 34. mínútu og fimm mínútum síðar jafnaði Helgi Valur Smárason. Staðan var 2-2 í hálfleik en Bjarni Þorvaldsson skoraði sigurmark KFR strax á 6. mínútu seinni hálfleiks og þar við sat, lokatölur 2-3.
Stokkseyri heimsótti Úlfana á Framvöllinn í Úlfarsárdal. Heimamenn komust yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var 1-0 í hálfleik. Úlfarnir skoruðu aftur snemma í seinni hálfleik og Stokkseyringar náðu ekki að svara fyrir sig í seinni hálfleiknum. Þriðja mark Úlfanna leit dagsins ljós á lokamínútu leiksins og lokatölur urðu 3-0.
Árborg tók á móti Augnabliki á Selfossvelli. Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik, komust í 1-0 á 20. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Árborg byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og fékk nokkur færi til að jafna en inn vildi boltinn ekki. Augnablik tvöfaldaði forskotið á 68. mínútu og við það minnkaði slagkraftur Árborgara sem fengu tvö mörk í andlitið á lokakaflanum og lokatölur urðu 0-4.
Á morgun tekur Ægir á móti KV á Selfossvelli kl. 13 og fjórum klukkustundum síðar taka Uppsveitir á móti Hvíta riddaranum á sama velli. Á sunnudaginn kl. 14 fær Hamar Skallagrím í heimsókn í Þróttheima.
KFR fær útileik í 2. umferðinni gegn KÁ á Ásvöllum í Hafnarfirði um næstu helgi.