Það var stórleikur á Stokkseyrarvelli í 5. deild karla í knattspyrnu í dag þegar Stokkseyri tók á móti KFR í Suðurlandsslag. Leikurinn var einn af hápunktum Bryggjuhátíðarinnar sem er á Stokkseyri um helgina.
Leikurinn var fjörugur í fyrri hálfleik og Hákon Kári Einarsson kom Rangæingum yfir með glæsilegri bakfallsspyrnu strax á 6. mínútu. Sæla KFR varði þó aðeins í tvær mínútur því Hafþór Berg Ríkharðsson var fljótur að jafna fyrir Stokkseyri. Á 23. mínútu fékk KFR vítaspyrnu og úr henni skoraði Helgi Valur Smárason en tíu mínútum síðar jafnaði Jón Jökull Þráinsson fyrir Stokkseyri og staðan var 2-2 í hálfleik.
KFR var sterkari aðilinn í seinni hálfleiknum og þegar leið á leikinn áttu þeir mun meira á tanknum. KFR fékk aðra vítaspyrnu í 65. mínútu og aftur skoraði Helgi Valur af öryggi. Staða heimamanna batnaði ekki á 75. mínútu þegar Jóhann Fannar Óskarsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt og manni fleiri áttu Rangæingar auðvelt með að loka leiknum. Varamaðurinn Birkir Rúnar Björgvinsson skoraði síðasta mark þeirra í uppbótartímanum og tryggði KFR 4-2 sigur.
Uppsveitir töpuðu heima
Í gærkvöldi tapaði lið Uppsveita stórt á heimavelli gegn Skautafélagi Reykjavíkur. Staðan var 0-3 í hálfleik og SR skoraði önnur þrjú mörk áður en Francisco Vano minnkaði muninn í 1-6 þegar tíu mínútur voru eftir. Þrátt fyrir klókar skiptingar á lokakaflanum tókst liði Uppsveita ekki að bæta við mörkum og SR hafði 1-6 sigur.
Staðan í riðlinum er þannig að KFR er í toppsætinu með 25 stig, Uppsveitir eru í 6. sæti með 7 stig og Stokkseyri er í 7. sætinu með 6 stig.