Knattspyrnufélag Rangæinga er komið með annan fótinn í úrslitakeppni 3. deildar karla eftir dramatískan sigur á Ými í Kópavogi í lokaumferðinni í kvöld.
Leikurinn í kvöld var jafn í fyrri hálfleik en heimamenn komust yfir á 33. mínútu. Tíu mínútum síðar jafnaði Reynir Björgvinsson muninn fyrir KFR og staðan var 1-1 í hálfleik.
Eftir harða baráttu í seinni hálfleik stefndi allt í 1-1 jafntefli þrátt fyrir ágæt færi beggja liða. Ýmismenn voru meira með boltann og áttu góð færi en Rangæingar áttu hættulegar skyndisóknir.
Lokamínúturnar voru æsispennandi og fékk KFR vítaspyrnu á lokamínútunum auk þess sem leikmanni Ýmis var vikið af velli. Markvörður Ýmis varði hinsvegar víti Boban Jovic og Ýmismenn virtust ætla að bruna í sókn. KFR náði hinsvegar boltanum og hófu stórsókn sem endaði með fallegu marki Reynis Björgvinssonar og allt ætlaði um koll að keyra.
Ýmismenn reyndu hvað þeir gátu til að sækja en tókst ekki. Boban Jovic fékk svo rauða spjaldið í lokin fyrir ljótt brot til að tefja sókn Ýmismanna.
KFR hefur nú 28 stig og 14 mörk í plús í efsta sæti riðilsins. Þar á eftir koma Léttir og KV með 26 og 25 stig. Léttir mætir KFS á laugardag en KV tekur á móti KH annað kvöld. Ætli KV sér uppfyrir KFR þurfa Vesturbæingar að vinna KH 9-0.