KFR mjakast upp töfluna – Hamar tapaði

KFR vann góðan sigur á Víði Garði í 3. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Í kvöld tapaði Hamar á útivelli gegn Leikni Fáskrúðsfirði.

Hjörvar Sigurðsson kom KFR yfir á 26. mínútu gegn Víði í gærkvöldi en gestirnir náðu að jafna á lokamínútu fyrri hálfleiks, 1-1 í hálfleik.

Bjarki Axelsson skoraði annað mark KFR þegar tæpar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en gestirnir jöfnuðu leikinn mínútu síðar. Staðan var þó ekki lengi jöfn því Sigurður Benediktsson skoraði sigurmark leiksins fyrir KFR mínútu eftir að Víðir hafði jafnað.

Á Fáskrúðsfirði kom Kjartan Guðjónsson Hamri yfir á 12. mínútu leiksins en heimamenn jöfnuðu rúmum tíu mínútum síðar. Leiknir komst svo yfir á 36. mínútu en Kjartan var aftur á ferðinni á lokamínútu fyrri hálfleiks og jafnaði, 2-2 í hálfleik.

Heimamenn voru sterkari í síðari hálfleik og á 58. mínútu komust þeir í 3-2. Hamar átti ágætar sóknir inn á milli en það voru Leiknismenn sem skoruðu síðasta markið á 74. mínútu og gerðu þannig endanlega út um leikinn.

KFR er nú í 6. sæti deildarinnar með 16 stig en Hamar vermir botnsætið sem fyrr með 3 stig.

Fyrri greinSelfyssingum tókst ekki að skora
Næsta greinVoces Veritas í Sólheimakirkju