KFR og Hamar sitja í tveimur neðstu sætum 3. deildar karla í knattspyrnu. Bæði lið töpuðu leikjum sínum í dag.
Hamar tók á móti Berserkjum í Hveragerði í sjö marka leik. Gestirnir komust yfir á 13. mínútu en Mark Lavery jafnaði metin á 31. mínútu og örskömmu síðar hafði Logi Geir Þorláksson komið Hamri yfir. Staðan var 2-1 í hálfleik.
Hamar hélt forystunni þangað til rúmar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum en þá skoruðu gestirnir tvö mörk á þriggja mínútna kafla. Berserkir bættu svo tveimur mörkum við í uppbótartíma og lokatölur urðu 2-5.
KFR heimsótti Grundarfjörð og heimamenn komust yfir strax á 1. mínútu leiksins. Staðan var 1-0 í hálfleik en Grundfirðingar skoruðu annað markið á 64. mínútu. Almir Cosic minnkaði muninn fyrir KFR með marki úr aukaspyrnu á 79. mínútu og þar við sat.
KFR er í 9. sæti deildarinnar með 3 stig en Hamar er í neðsta sætinu og hefur ekki ennþá unnið leik í deildinni.