KFR valtaði yfir ÍH og Hamar vann öruggan sigur á Grundarfirði þegar leikið var í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Á Hvolsvelli komust gestirnir yfir á 18. mínútu en Helgi Ármannsson jafnaði fyrir KFR aðeins tveimur mínútum síðar. Helgi náði síðan að kóróna þrennuna á síðustu fjórum mínútum fyrri hálfleiks og staðan var 3-1 í hálfleik.
Almir Cosic kom KFR í 4-1 strax í upphafi síðari hálfleiks og á 58. mínútu var Helgi á ferðinni með sitt fjórða mark. Þórhallur Lárusson rak svo smiðshöggið á stórsigur KFR með sjötta markinu á 73. mínútu.
Í Hveragerði voru Grundfirðingar í heimsókn og þar skoraði Tómas Hassing tvívegis fyrir heimamenn á fyrsta hálftímanum. Staðan var 2-0 í hálfleik en Ingólfur Þórarinsson skoraði eina mark síðari hálfleiks og innsiglaði þar annan sigur Hamars í deildinni í sumar.
KFR er í 6. sæti 3. deildarinnar með 19 stig en Hamar er áfram í botnsætinu, nú með 7 stig.