KFR sigraði í markaleik

Knattspyrnufélag Rangæinga lagði KFS að velli í nágrannaslag á Selfossvelli í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag.

Guðmundur Gunnar Guðmundsson kom KFR yfir á 31. mínútu en KFS jafnaði metin aðeins tveimur mínútum síðar. Þórhallur Lárusson og Guðmundur Gunnar bættu hins vegar við mörkum fyrir KFR áður en fyrri hálfleik lauk og staðan var 3-1 í leikhléi.

Þormar Elvarsson jók forskot Rangæinga enn frekar strax í upphafi síðari hálfleiks en KFS kom til baka með tveimur mörkum á 56. og 80. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 4-3.

Þetta var síðasti leikur liðanna í riðlinum, KFR endaði í 4. sæti með 6 stig en nágrannar þeirra úr suðri höfnuðu í botnsætinu og unnu ekki leik í mótinu.

Fyrri greinLandgræðslan fékk umhverfisverðlaun Ölfuss
Næsta greinSelfoss varði titilana